Trampolín

Nú er sumarið komið og margir búnir að taka fram trampolínin og stilla upp í görðum sínum. Það að hoppa á trampolíni er bæði skemmtileg og góð líkamsþjálfun sem styrkir vöðva, þjálfar samhæfingu, jafnvægi og eykur þol. Því miður verða samt þó nokkuð mörg slys á ári hverju á trampolínum í görðum landsmanna. Algengustu meiðslin eru: Beinbrot, heilahristingur, tognun, mar, skrámur og skurðir.

Flest slys verða þegar einstaklingur lendir illa, lendir á gormum eða grind trampolíns, gerir stökk sem einstaklingurinn ræður ekki við og þegar fleiri en einn hoppa í einu og skella saman. Okkur hjá FIMAK langar að benda ykkur á nokkur atriði sem vert er að yfirfara bæði á trampolíninu sjálfu og eins með krökkunum sem nota trampolínið til þess að fyrirbyggja slys.

  • Fylgið leiðbeiningum um samsetningu trampolíns og passið að allar festingar, skrúfur og hlífðarpúðar séu vel fest.
  • Yfirfarið trampolínið reglulega, athugið festingar, gorma og hlífðardýnuna yfir gormunum.
  • Passið að öryggisnetið sé vel strekt svo börn geti ekki flækt sig í því.
  • Staðsetjið trampolínið þannig að gott pláss sé í kringum það. Stillið trampolínið aldrei nálægt t.d. húsvegg eða skjólvegg.
  • Gætið þess að undirlagið sé slétt, halli á trampolíni getur valdið því að börn skjótist af því.
  • Á Íslandi er ekki skylda að hafa öryggisnet á trampolínum í görðum, við mælum þó eindregið með því enda getur fallið verið hátt ef barn skýst af trampolíni og lendir utan þess.
  • Setjið reglur um notkun trampolínsins t.d. aðeins einn hoppar í einu, engir aukahlutir eiga að vera á trampolíninu (boltar, hjólahjálmar o.fl.), hoppa í miðjunni á trampolíninu.
  • Kennið börnunum að hoppa á trampolíninu
    • Að stoppa: Hoppa rólega 3 sinnum, beygja svo hnén þannig að barnið stoppar.
    • Ef hoppað er á rassinn eiga hendurnar að vera hjá mjöðum/lærum en alls ekki fyrir aftan líkamann.
  • Fylgist með börnunum. Ef þið verðið vör við að þau reyna að framkvæma stökk sem þau ráða ekki við stoppið þau þá af til að koma í veg fyrir háls- og hryggáverka.

Að lokum bendum við ykkur á að eigandi trampolíns ber ábyrgð á trampolíninu.  Það er því undir eigendunum komið að fylgjast með notkun og að notendurnir fari að þeirra reglum. Þetta á líka við um ef að einhver hoppar á trampolíni ykkar í leyfisleyi, eigandinn er samt ábyrgur.

Skemmtum okkur vel og slysalaust í sumar!

Erla Ormarsdóttir, framkvæmdastjóri FIMAK

 

Heimildir: Forvarnarhúsið, http://www.forvarnahusid.is/category.aspx?catID=201 , Lýðheilsustöð, http://www2.lydheilsustod.is/greinar/greinasafn/slysavarnir/nr/2650 , Slysavarnafélagið Landsbjörg, http://www.landsbjorg.is/category.aspx?catID=363