Snorri Bergþórsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri FIMAK. Snorri hefur undanfarna þrjá vetur verið í viðskiptafræðinámi við HA en hann mun ljúka því námi um næstu áramót, þar sem hann á einungis eftir að skila lokaritgerð. Lokaritgerðina mun hann vinna með Íþróttafélaginu Þór um stefnumótun félagsins. Snorri er einnig íþróttafræðingur að mennt frá Laugavatni og hefur starfað sem íþrótta- og umsjónarkennari við Lundarskóla frá árinu 2007.
Eiginkona Snorra er Katrín Ýr Pétursdóttir, aðstoðarframkvæmdarstjóri T Plús og eiga þau fjögur börn.
„Ég er mjög ánægður að fá að takast á við þau krefjandi verkefni sem bíða mín hjá FIMAK. Næstu daga mun ég nýta til að koma mér inn í starfið og kynnast öllu því góða fólki sem ég mun starfa með næstu árin“.
Snorri mun hefja störf á morgun 9. maí.
Stjórn FIMAK þakkar fráfarandi framkvæmdastjóra, Rut Jónsdóttur, fyrir góð störf síðastliðin ár og býður um leið Snorra velkominn til starfa.