Samherji hf. boðaði til móttöku síðdegis í gær í KA-heimilinu á Akureyri og afhenti við það tækifæri styrki til ýmissa samfélagsverkefna á Eyjafjarðarsvæðinu upp á 75 milljónir króna. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og verndari Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, var viðstaddur afhendinguna og flutti ræðu. Hann er einnig verndari sérstaks rannsóknaverkefnis sem tengist neðansjávarstrýtunum á botni Eyjafjarðar en það verkefni var kynnt í móttökunni og hlaut styrk frá Samherja.
Flestir styrkirnir eru gagngert veittir til að efla barna- og unglingastarf í íþrótta- og æskulýðsfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu. Þetta er fjórða árið í röð sem Samherji afhendir slíka styrki. Í ár fékk Fimleikafélag 5 milljónir í styrk frá Samherja. Við erum mjög þakklát fyrir þennan styrk og vitum að hann mun létta undir foreldrum þegar kemur að kostnaði við æfingagjöld og keppnisferðir.
Þáttaka barna og unglinga í íþróttum er ómetanlegur þáttur í forvörnum og uppeldi. Samherji vill efla þjálfun og annað starf félaganna og um leið stuðla að því að sem flest börn og unglingar geti stundað þær íþróttagreinar sem hugur þeirra stendur til. Fjármununum skal varið til að lækka æfingagjöld barna og unglinga og/eða til að lækka kostnað við keppnissferðir þeirra veturinn 2011-2012 í þeim íþróttagreinum sem félögin hafa innan vébanda sinna. Til að tryggja að þessir fjármunir fari í að efla barna- og unglingastarf og vinna með íþróttafélögunum að útfærslunni er starfandi þriggja manna hópur. Hann skipa þau Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Árni Óðinsson og Jóhannes Bjarnason.
Stjórn FIMAK