Landsliðsþjálfarar í áhaldafimleikum þau Hildur Ketilsdóttir (kvenna), Þorbjörg Gísladóttir (unglinga) og Róbert Kristmannsson (karla), hafa á dögunum verið með úrtökuæfingar fyrir úrvalshópa í áhaldafimleikum fyrir árið 2020. Vel hefur verið mætt á æfingarnar og hafa þær gengið vonum framar. Frá FIMAK voru boðuð þau Salka Sverrisdóttir, Elenóra Mist Jónsdóttir, Kristín Hrund Vatnsdal, Emílía Mist Gestsdóttir, Mikael Gísli Finnsson og Sólon Sverrisson. Í úrvalshópum hjá FSÍ eru þeir einstaklingar sem koma til greina í landsliðsverkefni á árinu í hverjum aldursflokki fyrir sig, bæði í unglinga- og fullorðinsflokki. Fjöldi í úrvalshópi er ekki ákveðinn fyrirfram heldur eru þeir valdir hverju sinni sem erindi eiga í ólík verkefni landsliðsins á hverju ári fyrir sig. Af þeim sem tóku þátt frá FIMAK hefur Salka Sverrisdóttir verið valin áfram til þáttöku í æfingabúðum U-16 landsliðs unglinga sem fram fara í Reykjavík 22.-24. Janúar 2020.
Auk þess hefur Róbert Kristmannsson hafið Hæfileikamótun fyrir drengi í áhaldafimleikum. En um er að ræða æfingar fyrir drengi sem verða 12-14 ára á árinu 2020 og áhersla er lögð á samvinnu félaga, þjálfara og að skapa vettvang fyrir iðkendur til að æfa saman, læra af hverjum öðrum og kynnast sem samherjar en ekki mótherjar. Í þeim hóp eru Mikael Gísli Finnsson og Sólon Sverrisson.