Allir komnir heim eftir skemmtilega helgi

Þá eru allir keppendur sem fóru á vormótið á Egilsstöðum komnir heim. Ferðin heim tók aðeins lengri tíma en venjulega en það hafðist allt saman á endanum. Ég vil fyrir hönd félagsins þakka farastjórum fyrir að halda vel utan um hópinn og gera það besta úr stöðunni þegar ljóst var að krakkarnir kæmust ekki heim í gær. Ég vil líka þakka öllum keppendum FIMAK fyrir helgina, þau stóðu sig öll frábærlega og voru félaginu til sóma. Ekki skemmdi svo fyrir að vinna tvo deildameistaratitla, bæði í 3. og 5. flokki.

Það eru einhverjir óskilamunir úr ferðinni í þjálfaraherberginu okkar, meðal annars nestisbox, handklæði, hárburstar og vatnsbrúsar sem krakkarnir fengu á mótinu.

Með kveðju,

Erla Ormarsdóttir, framkvæmdastjóri FIMAK

 

Uppfært kl: 15.31, hópurinn er að koma niður Víkurskarðið í þessum töluðu orðum. Þetta ferðalag er að hafast :)

Uppfært kl. 13:50. Rútan er að leggja af stað frá Mývatnssveit rétt í þessu ( 13:30) og er áætlað að hún komi um kl:15:00 í dag.

Kv. FIMAK (fyrir hönd Erlu)

Uppfært kl. 10.20: Hópurinn er að leggja af stað. Veðrið lagaðist snögglega og var ákveðið að keyra af stað. Allir eru komnir upp í rútu og eru þau bara að leggja í hann.

Kveðja,
Erla

Uppfært kl. 09.30 (mánudagur): Farastjórar og rútubílstjórinn hafa komið sér saman um að skoða stöðuna klukkan 11.30. Núna er skyggnið ekki gott, snjókoma og mikið fjúk. Vonandi bara að veðrið fari að lagast svo allir komist heim. Það hafa það samt allir gott, í morgun komu fréttamenn í heimsókn og tóku viðtöl við krakkana sem var mikið sport. Ég set næst inn upplýsingar um 11.30.

Erla

Uppfærsla kl. 20.52: Það fer sko alls ekki illa um hópinn í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Það var haldin heljarinnar pizzu partý og nú skemmta krakkarnir sér í koddaslag. Þetta er alveg frábær hópur sem lætur vetrarveðrið ekki slá sig út af laginu. Ég set næst inn upplýsingar í fyrramálið.

Áfram FIMAK

Uppfærsla kl. 17.47: Hópurinn er kominn til Egilsstaða. Þau fá gistingu í Menntaskólanum á Egilsstöðum ásamt nokkrum liðum af suðurulandinu. Pantaðar verða pizzur í kvöldmatinn og hefur stjórn Hattar bjargað málunum þannig að þau fá morgunmat í fyrramálið. Um 7 leytið á morgun verður staðan metin um hvort lagt verði af stað þá. Allar nánari upplýsingar birtast hér á síðunni. Einnig er hægt að ná í mig (Erla) í síma 848-7350 ef eitthvað er.

 

Tekin var ákvörðun um að snúa rútunni við og er hópurinn er aftur á leið til Egilsstaða. Að öllum líkindum gista þau aðra nótt þar. Þessi ákvörðun var tekin því skyggnið var afar slæmt. Farastjórar hafa þegar sett sig í samband við mótshaldara sem eru liðinu innan handar við að redda gistingu og mat. Ég kem til með að setja inn upplýsingar hér inn eftir því sem þær berast.

Erla Ormars.