Síðasta miðvikudag fór fram krýning á Íþróttamanni ársins hjá Fimleikafélaginu. Valið fer þannig fram að valdir eru þrír iðkendur, einn úr hverri fimleikagrein og einn af þeim fær svo titilinn Íþróttamaður ársins. Valið er í höndum yfirþjálfara félagsins þeim Florin, Alla, Birgi og Mattý. Við þetta val er tekið mið af árangri á mótum, ástundun og jákvæðni á æfingum auk þess þarf viðkomandi að vera góð fyrirmynd annarra iðkenda.
Í áhaldafimleikum kvenna var valin:
Guðrún Jóna Þrastardóttir úr F1.
Í áhaldafimleikum karla var valinn:
Jón Smári Hansson úr K1.
Í hópfimleikum var valin:
Bryndís Huld Þórarinsdóttir úr I4.
Jón Smári hefur verið á mikilli uppleið í fimleikum og náð framúrskarandi árangri á mótum. Hann hefur oft náð því lágmarki sem þarf til að komast á Íslandsmót og í fyrra var engin undantekning þar á. Jón Smári keppir í 3ja þrepi íslenska fimleikastigans og í haust sigraði hann í samanlögðu í 3ja þrepi drengja 11 ára. Frábær árangur hjá honum. Jón Smári er mjög ákafur og einbeittur iðkandi sem gerir það sem hann ætlar sér. Hann er frábær fyrirmynd fyrir aðra drengi og aðra iðkendur almennt. Jón Smári tók við titlinum Íþróttamaður Fimleikafélags Akureyrar af systur sinni Heiðu Hansdóttur sem var kjörin fyrir árið 2010. Hann mun því vera okkar fulltrúi í kjöri ÍBA á Íþróttamanni Akureyrar þar sem hann keppir við aðra systur sína, Helgu Hansdóttur sem kjörin var Íþróttamaður KA, um titilinn.
Við óskum Jóni Smára innilega til hamingju með verðskuldaðan titil.
Stjórn FIMAK