Íþróttafólk FIMAK 2021 Jóhann Gunnar Finnsson og María Sól Jónsdóttir

María Sól og Jóhann Gunnar íþróttafólk FIMAK 2021
María Sól og Jóhann Gunnar íþróttafólk FIMAK 2021

Í dag var íþróttafólk Fimleikafélagsins fyrir árið 2021 krýnt.  Þjálfarar völdu þau Jóhann Gunnar Finnsson úr hópfimleikum sem íþróttamann FIMAK 2021 og Maríu Sól Jónsdóttir úr áhaldafimleikum sem íþróttakonu FIMAK 2021. Þau eiga það sameiginlegt að hafa stundað íþróttina síðan á leikskólaaldri og með mikilli vinnu, ástundum og einbeitingu náð langt hvort í sinni grein.  Jóhann Gunnar keppti með landsliði Íslands á Evrópumóti í hópfimleikum í desember þar sem liðið endaði í 3ja sæti og María keppir í frjálsum æfingum í áhaldafimleikum og komst í úrslit á stökki á íslandsmóti.

Jóhann Gunnar Finnsson, Íþróttamaður ársins 2021.

Jóhann Gunnar sem verður átján ára á árinu hefur æft fimleika hjá FIMAK frá leikskólaaldri. Lengst af æfði hann áhaldafimleika undir leiðsögn Jan Bogodoi en færði sig yfir í hópfimleika í ársbyrjun 2021. Jóhann hafði aðeins æft hópfimleika í nokkra mánuði þegar hann var valinn í blandað lið Íslands fyrir Evrópumótið í Portúgal í fyrra og þar var hann lykilmaður í liðinu sem vann til bronsverðlauna á mótinu. Þetta er í fyrsta skipti sem FIMAK á keppanda á Evrópumóti. Jóhann Gunnar hefur frá áramótum keppt með karlaliði Stjörnunnar og nú síðast á Mótaröð 2 hér á heimavelli FIMAK. Auk þess að æfa fimleika af kappi stundar Jóhann Gunnar nám á raungreinabraut við MA. Jóhann er gríðarlega ákveðinn og vinnusamur og leggur mikið á sig við æfingar til að ná markmiðum sínum. Þar að auki er hann góður liðsfélagi og frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur. Fimleikar fyrir stráka eru á uppleið á íslandi og Jóhann Gunnar tók í sumar þátt í stóru verkefni undir stjórn FSÍ til þess að vekja enn meiri athygli á íþróttinni. Jóhann stefnir á frekari þátttöku á stórmótum í hópfimleikum og við eigum vafalaust eftir að sjá hann gera frábæra hluti í framtíðinni. Við óskum Jóhanni Gunnari innilega til hamingju með titilinn Íþróttamaður ársins.

 

 

María Sól Jónsdóttir, Íþróttakona ársins 2021.

María Sól sem verður sautján ára á árinu hefur æft áhaldafimleika hjá FIMAK frá leikskólaaldri. Lengst af æfði hún undir leiðsögn Florin og Mirelu Paun en þjálfarar hennar frá árinu 2020 eru Mihaela og Jan Bogodoi. María Sól keppir í frjálsum æfingum og var hún árið 2021 meðal fyrstu iðkenda FIMAK til að keppa í frjálsum æfingum á Bikarmóti og á Íslandsmóti þar sem hún komst í úrslit á stökki. Einnig keppti hún á GK meistaramóti þar sem hún vann bronsverðlaun á gólfi. María Sól er með vinnusemi sinni, ákveðni og vingjarnlegri framkomu góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins og auk þess að æfa sjálf fimleika er hún aðstoðarþjálfari yngri hópa og stundar nám á íþróttabraut við VMA. Við hlökkum til að sjá Maríu Sól gera góða hluti í framtíðinni og óskum henni innilega til hamingju með titilinn Íþróttakona ársins.