Síðustu 3 helgar hafa keppendur í áhaldafimleikum keppt á Þrepamóti FSÍ. Mikill fjöldi er skráður til keppni í þrepum hjá Fimleikasambandinu og því þurfti að skipta mótinu niður á 3 helgar. Frá Fimleikafélagi Akureyrar tóku 30-40 krakkar þátt í mótinu og náðu öll frábærum árangri. Síðustu helgina í janúar fór fram 5. þrep stúlkna hjá fimleikafélaginu Björk í Hafnafirði. Á því móti sigruðu þær Margrét Anna Jónsdóttir í hópi 10 ára og Eva Natalía Elvarsdóttir í hópi 13 ára og eldri. Í 2. sæti urðu þær Sonja Elísabet Jóhannesdóttir í hópi 10 ára og Birna Dísella Bergsdóttir í hópi 11 ára.
Helgina eftir eða fyrstu helgina í febrúar var svo keppt í 4. þrepi stúlkna og 4. og 5. þrepi drengja. Sömu helgi fór fram RIG í Laugardalshöllinni og þar sem áhöldin voru uppsett þar fór þessi hluti þrepamótsins einnig þar fram í umsjón Ármenninga. Í 4. þrepi sigraði Martha Josefine Mekkin Kristensen í hópi 12 ára, Karlotta Björk Andradóttir varð önnur í hópi 10 ára og Sara Mist Hjálmarsdóttir var fjórða í hópi 11 ára. Hjá strákunum fóru leikar þannig í 4. þrepi að Sólon Sverrisson varð annar og Mikael Gísli Finnsson þriðji í hópi 10 ára. Í 5. þrepi drengja varð Tómas Hólm Evuson annar og Natan Breki Ingason fjórði í hópi 9 ára.
Um síðustu helgi fór svo fram síðasti hluti þrepamóts FSÍ sem haldið var hér á Akureyri í umsjón FIMAK. Þar var keppt í 1.-3. Þrepi hjá bæði stúlkum og drengjum. Í 3. þrepi stúlkna varð Emílía Mist Gestsdóttir fjórða í hópi 11 ára, Salka Sverrisdóttir önnur í hópi 12 ára og Kristín Hrund Vatnsdal fjórða einnig í hóp 12 ára. Í 3. þrepi drengja varð Jóhann Gunnar Finnsson efstur og Gísli Már Þórðarson annar.
Á þessum mótum voru einnig veitt verðlaun fyrir hvert áhald og er óhætt að segja að fjöldi verðlauna hafi komið í hlut keppenda frá FIMAK. Stórglæsilegur árangur undir leiðsögn þjálfaranna Florin Paun, Mirela Paun, Jan Bogodoi, Mihaela Bogodoi og Amöndu Helgu Elvarsdóttir þar sem flestir voru að bæta sinn persónulega árangur og allmargir að ávinna sér þátttöku á Íslandsmóti í þrepum sem haldið verður í byrjun apríl.