Fimleikakona ársins 2015 – Auður Anna Jónasdóttir

Fimleikafélag Akureyrar hefur valið Auði Önnu Jónasdóttur fimleikakonu ársins. Auður Anna er einn fremsti iðkandi félagsins í
hópfimleikum og því vel að titlinum komin. Hún er yndisleg persóna og frábær fyrirmynd fyrir aðra iðkendur félagsins. Auður Anna er lykilmanneskja í liðum félagsins í meistaraflokki og 1.flokki sem bæði stóðu sig vel á tímabilinu. Til að mynda keppti meistaraflokkur á Bikarmóti í hópfimleikum þar sem þær höfnuðu í 2. sæti í B deild. Þar gegndi Auður Anna hlutverki fyrirliða og gerði það vel.

Auður Anna varð einnig íslandsmeistari í opnum flokki 16 ára og eldri í Stökkfimi síðastliðið haust. Þar vann hún til gullverðlauna á öllum áhöldum; trampólini, stökki yfir hest, dýnuæfingum og í samanlögðum árangri. Auður Anna starfar sem þjálfari hjá félaginu þar sem hún vinnur með yngri iðkendum. Hún kemur ávalt fram af virðingu við bæði iðkendur og þjálfara. Hún mætir jákvæð á hverja æfingu og leggur sig alla fram. Auður Anna er sjálfri sér og félaginu alltaf til sóma og getur Fimleikafélag Akureyrar verið stolt af því að tilnefna hana Fimleikakonu ársins 2015 og um leið tilnefnd af félaginu til kjörs íþróttamanns
Akureyrar. Er þetta í annað skipti sem Auður hlýtur þennan titil hjá félagi þar sem hún var kosin fimleikakona félagsins árið 2012.

Við Óskum Auði Önnu til hamingju.

Stjórn FIMAK