Embla Dögg og Ögri fimleikafólk FIMAK árið 2016

Ögri & Embla Dögg
Ögri & Embla Dögg

Í Kvöld fór fram krýning á íþróttafólki FIMAK fyrir árið 2016. Að þessu sinni var ákveðið að fara að fordæmi ákvörðunar sem samþykkt var á þingi ÍBA sem fram fór vorið 2016 um að veita framvegis verðlaun fyrir karl annars vegar og konu hins vegar. Félagið hefur valið Emblu Dögg Sævarsdóttir sem fimleikakonu ársins og Ögra Harðarson sem fimleikamann ársins.

Embla Dögg er einn fremsti iðkandi félagsins í hópfimleikum og því vel að titlinum komin. Hún er yndisleg persóna og frábær fyrirmynd fyrir aðra iðkendur félagsins.  Hún náði fram í lokatúrtak fyrir Evrópumótið í hópfimleikum sem haldið var í Slóveníu í haust og lagði stund á þrotlausar æfingar í allt sumar með jafningjum sínum.

Ögri leggur stund á áhaldafimleika og keppir í 1. Þrepi íslenska fimleikastigans. Hann er okkar fremsti iðkandi og vann til margra verðlauna á liðnu ári.  Hann er góð fyrirmynd þar sem hann er langelstur í keppnishópi drengja í áhaldafimleikum og margir ungir sem líta upp til Ögra.

Á ársþingi ÍBA 2016 var einnig samþykkt tillaga að íþróttafélög sem eru með fleiri en eina keppnisíþrótt gætu sent fleiri en einn fulltrúa af hvoru kyni ef þeim fyndist aðrir eiga möguleika í valinu um íþróttamann Akureyrar.  Fimleikafélagið ákvað að nýta sér þann möguleika og tilnefndi einnig Guðmund Kára Þorgrímsson.  Guðmundur æfði hjá okkur hópfimleika keppnisveturinn 2015-2016. Hann var valinn á úrtökuæfingar fyrir Evrópumótið í hópfimleikum og komst í gegnum niðurskurðinn og keppti því með landsliði Íslands í blönduðu liði unglinga. Það er öllum ljóst að liðið vann til bronsverðlauna í Maribor í Slóveníu.

Til hamingju Embla, Ögri & Guðmundur