17 manna úrtakshópur í hópfimleikum unglinga - Embla Dögg og Guðmundur Kári komin áfram

Guðmundur og Embla Dögg
Guðmundur og Embla Dögg

Það hefur lengi verið draumur Fimleikafélags Akureyrar að eignast afreksmann í fimleikum sem nær svo langt að keppa fyrir Íslands hönd í fimleikum.  Frá áramótum hafa farið fram úrtaksæfingar fyrir landsliðsval í hópfimleikum og fóru 7 krakkar frá FIMAK suður á æfingu með þjálfurum sínum í janúar þau Embla Dögg, Guðmundur, Andrea, Viktoría, Bryndís, Emilía og Bjarney.

Nú hafa landsliðsþjálfarar í hópfimleikum unglinga valið 17 manna hóp bæði í stúlknaliði og í blönduðu liði.   Það er okkur mikil ánægja að segja frá því að tveir iðkendur frá FIMAK þau Embla Dögg Sævarsdóttir og Guðmundur Kári Þorgrímsson eru komin í 17 manna hóp sem mun æfa stíft í sumar.  Í haust verða svo valdir 12 iðkendur í hvort landslið unglinga sem munu taka þátt í Evrópumóti í TeamGym sem fram fer í Slóveníu 10. - 16. október 2016.  Embla og Guðmundur hafa æft og keppt með 1. flokki FIMAK í vetur og voru í sigurliði FIMAK í 1. flokk í B-deild á Íslandsmóti sem fram fór um síðustu helgi á Selfossi, Guðmundur keppti sem gestur á mótinu þar sem FIMAK nær því miður ekki í strákalið. Þau eru líka bæði krýndir Akureyrarmeistarar í sínum aldursflokki í opinni-deild. Flottir krakkar  og frábærar fyrirmyndir sem við hlökkum til að fylgjast með næstu árin.

Til hamingju Embla Dögg og Guðmundur Kári