Íslandsmót í þrepum í áhaldafimleikum- úrslit

Marý Lind, Bjarney Sara og Sesselja Sif
Marý Lind, Bjarney Sara og Sesselja Sif

Síðustu helgi fór fram Íslandsmót í þrepum í áhaldafimleikum.  Mótið var haldið hjá Ármenningum í Laugardalnum.  Frá FIMAK fóru 12 keppendur, 3 strákar sem kepptu í 4. og 5. þrepi og 9 stelpur sem einnig kepptu í 4. -5. þrepi.  Til að ölðast þátttökurétt á Íslandsmót þarf að hafa náð lágmarksstigum hvers þreps að undanskildum drengjaflokkum, þar eru viðmiðin aðeins neðar vegna fjölda áhalda.

Besti árangur okkar var hjá Bjarney Söru Bjarnadóttir sem hafnaði í 2. sæti í fjölþraut í 4. þrepi  12 ára með 56,750 stig. Bjarney var einnig í 2. sæti á slá.  Með henni kepptu Mary Lind Rúnarsdóttir sem lenti í 11. sæti samanlagt og Sesselja Sif Óðinsdóttir sem lenti í 3. sæti á tvíslá og 8. sæti samanlagt.  Petra Reykjalín Helgadóttir og Þórey Edda Þórleifsdóttir kepptu í 4. þrepi 13 ára og eldri og lenti Petra í 1. sæti á stökki og í 5. sæti samanlagt og Þórey í 9.  sæti samanlagt. Í 5. þrepi 9 ára kepptu þær Hildur Heba Hermannsdóttir, Amelía Ýr Sigurðardóttir og Agnes Birta Eiðsdóttir.  Hildur og Amelía lentu í 8. og 9. sæti samanlagt og Agnes lenti í 3. sæti á stökki og 14. sæti samanlagt.  Í 5. þrepi 12 ára og eldri keppti Guðbjörg Heiða Stefánsdóttir og lenti hún í 8. sæti.

FIMAK sendi 3 stráka til keppni, þá Ólaf Stefán Oddson Cricco, Birgi Val Ágústsson og Jóhann Gunnar Finsson.  Ólafur keppti í 4. þrepi 12-13 ára og lenti hann í 1. sæti á stökki og 8. sæti samanlagt.  Birgir Valur og Jóhann Gunnar kepptu í 5. þrepi 10 ára og yngri.  Birgir Valur lenti í 2. sæti á gólfi, 3. sæti í hringjum og 5. sæti samanlagt.  Jóhann Gunnar lenti í 10. sæti samanlagt.

Öll stóðu þau sig með stakri prýði og erum við afar stolt af krökkunum fyrir að hafa náð þeim árangri í vetur að komast á mótið.  Til gamans má þess geta að Jóhann Gunnar, Amelía Ýr, Hildur Heba og Agnes Birta náðu lágmarksaldri til keppni á FSÍ mótum um áramótin og hafa því aðeins keppt á 1-2 mótum fram að þessu móti.  Það er því óhætt að segja að gaman verður að fylgjast með þessum efnilegu krökkum í framtíðinni.

Stjórn og starfsfólk FIMAK